„Er með mynd af heilanum í símanum“
Greindist 18 ára með MS og ætlar ekki að setja lífið á pásu
Inga María Björgvinsdóttir greindist með MS-sjúkdóminn fyrir tæpu ári síðan. „Ég var búin að hafa bílpróf í einn mánuð þegar ég fann fyrir þyngslum í fótum og varð óörugg undir stýri. Svo missti ég alla tilfinningu fyrir neðan mitti og varð vör við ofskynjanir,“ segir Inga. Hún verður 18 ára í næstu viku og er harðákveðin í að láta sjúkdóminn ekki stjórna lífi sínu. Söngur og leiklist eru meðal áhugamála en hún syngur mikið í kirkjunni. Hún á góða vini þar og í kirkjunni finnur hún styrk í veikindunum.
„Mamma hélt að þetta væri klemmd taug af því að ég var svo mikið í tölvunni. En vinur mömmu, sem er læknir, sagði að ég þyrfti að fara strax á bráðamóttöku. Ég keyrði sjálf þangað. Þetta var í miðju verkfalli svo biðin var þónokkur en fljótlega var ég send á barnadeildina og þar var ég sett í alls kyns rannsóknir. Framan af var talið að um sýkingu væri að ræða en svo vaknaði fljótt grunur um að þetta væri MS,“ segir Inga og bætir við að í raun hefði fjölskyldunni brugðið meira en henni því hún hafi lítið vitað um sjúkdóminn. „Pabbi minn bjó í Svíþjóð þegar áfallið reið yfir og hann kom strax heim. Fjölskyldan hefur stutt mig dyggilega í veikindum.“
Inga segir að árlega greinist einn einstaklingur undir 18 ára á Íslandi og algengara sé að stúlkur fái MS-sjúkdóminn. Einkennin eru mismunandi og í raun afar einstaklingsbundin. Þar af leiðandi sé ekki skynsamlegt að „gúggla“ að mati Ingu og hún forðast það. Þegar hún er spurð að því hvort hún hefði leitað til MS-félagsins segir hún: „Fyrst var mér ekki ráðlagt að fara þangað enda kannski ekki það besta fyrir unga stelpu sem hefur nýlega greinst að sjá alla í hjólastól. Mamma mín hefur hinsvegar nýtt sér námskeið fyrir aðstandendur.“
Talið berst að Flensborgarhlaupinu og styrknum sem verður veittur MS-félaginu. Inga stingur upp á að hafa sjóð tileinkaðan ungu fólki með MS svo það geti t.d. valið sér námskeið sem hentar því og fengið styrk til þess. „Það hentar ekki ölllum að fara í jóga eða á hestbak en það er það sem boðið er upp á núna í félaginu. Svo kosta svona námskeið sitt og það kemur fyrir að maður getur ekki stundað vinnu. Ég fæ t.d. köst á eins og hálfs til tveggja mánaða fresti.“
„Nú er ég nemandi í Flensborg og þar er vel tekið á móti mér. Sumar vikur eru erfiðari en aðrar. En ég finn fyrir velvilja og flestir eru sveigjanlegir og skilningsríkir.“
Inga María er með mynd af heilanum á sér í símanum sínum. „Þetta er mynd úr segulómun og má greinilega sjá svokallaða MS-bletti á myndinni. Einn þeirra veldur því að ég hef verið blind á hægra auga um tíma.“ Í síðustu myndatöku kom í ljós að MS-blettum hefur fjölgað á mænunni. „En ég ætla ekki að setja lífið á pásu. Ég er ákveðin í því að láta þetta ekki stjórna lífi mínu. Mig langar að taka Pollýönnu á þetta“, segir þessi æðrulausa stúlka að lokum.