Fjárhagsáhyggjur að sliga ungt fólk með lífsógnandi sjúkdóm
Árlega greinast um 70 manns á aldrinum 18 – 40 ára með krabbamein hér á landi. Fyrstu einkenni geta verið afar mismunandi eftir því um hvaða tegund krabbameins er að ræða.
„Fyrir ungt fólk í blóma lífsins er það mikið áfall að greinast með krabbamein. Aðstæður ungs fólks eru allt aðrar en þeirra sem eldri eru. Þetta er fólkið sem er að koma undir sig fótunum og því nauðsynlegt að báðir aðilar séu úti á vinnumarkaðnum. Margir eiga ung börn og því er það mikið áfall þegar annar aðilinn greinist með lífsógnandi sjúkdóm, svo ekki sé talað um þann gífurlega kostnað sem fylgir,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað 1. október 1999 og hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Félagið er fyrir fólk á aldrinum 18 – 40 ára en þar sem félagið er einnig fyrir aðstandendur er fólk á öllum aldri í félaginu. Hjá félaginu starfa tveir einstaklingar, framkvæmdastjóri í 80% stöðu og sálfræðingur í 30% stöðu.
Meginmarkmið Krafts eru að styðja við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur með því að halda úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, öflugri fræðslu, samveru á jafningjagrunni, veita hagnýtar upplýsingar og stuðla að samvinnu félagasamtaka og annarra sem koma að málefnum þeirra sem tengjast sjúkdómnum. Þá starfrækir félagið ungliðahóp í samstarfi við Ljósið og SKB, endurhæfingar- og útivistarhópinn Fítonskraft og býður Krafts-félögum upp á sérstök kaffihúsakvöld þar sem krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra hittast og ræða málin.
„Það eitt að greinast með sjúkdóminn skapar mikið álag á fjölskylduna og þegar fjárhagsáhyggjur bætast svo gerir það fólki afar erfitt fyrir. Kostnaðarþátttaka varðandi lyf og læknisheimsóknir hefur hækkað verulega og þess eru mörg dæmi að fólk standi hreinlega ekki undir þeim kostnaði án hjálpar,“ segir Ragnheiður og getur þess að Kraftur hafi styrkt marga félagsmenn sína með fulltingi Neyðarsjóðs Krafts sem stofnaður var á 15 ára afmæli Krafts árið 2013.
„Við styrkjum fólk vegna lyfja- og lækniskostnaðar og má geta þess að styrkirnir eru á bilinu 100 – 500 þúsund. Þar að auki þarf fólk að takast á við tekjuskerðingu eða tekjumissi, greiða sálfræði- og tannlæknaþjónustu sem oft er þörf á. Við hjá Krafti höfum komið til móts við þessa einstaklinga og boðið upp á að minnsta kosti þrjá tíma hjá sálfræðingi félagsins, án endurgjalds.“
Ragnheiður bætir því við að stór þáttur í starfsemi félagsins sé alls kyns hagsmunabarátta á opinberum vettvangi þar sem hæst beri gagnrýni félagsins á háa greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga.
Í janúar síðastliðnum efndi félagið til vitunarvakningar um krabbamein þar sem ungt fólk sýndi örin eftir krabbameinsaðgerðir undir kjörorðunum „share your scar“. Kraftur lauk því átaki með veglegu málþingi undir yfirskriftinni Sigrumst á því saman.“
Þess má geta að Kraftur nýtur engra opinberra styrkja og byggir afkomu sína eingöngu á eigin fjármögnun og frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Allur stuðningur er því afar vel þeginn.